Yair Lapid, forsætisráðherra Ísrael, hefur heitið því að rannsaka mál konu sem starfaði sem fangavörður og var gerð að „kynlífsþræl“ af yfirmönnum hennar.
Í nokkur ár hafa borist fréttir af því að kvenkyns fangaverðir hafa verið misnotaðir í Gilboa-fangelsinu.
Í september komst fangelsið aftur í fréttir er sex Palestínumenn brutust út úr fangelsinu í gegnum göng sem voru grafin undir vaski. Fangelsið er í norðurhluta landsins og er mikið vaktað svæði þar sem hundruð Palestínumanna eru í haldi meðal annarra fanga.
Fyrir viku síðan steig kona fram og sagði frá ofbeldinu sem hún varð fyrir í fangelsinu á meðan hún starfaði sem fangavörður þar. Meðal annars var henni ítrekað nauðgað af palestínskum fanga.
Konan kom nafnlaust fram og sagði að yfirmenn hennar hafi „afhent“ fanganum hana og hún orðið að „kynlífsþræl“ hans.
„Ég vildi ekki að mér yrði nauðgað og að það yrði ítrekað brotið á mér.“
Keren Barak, lögfræðingur konunnar, kom fram í sjónvarpsviðtali og sagði að konan þyrfti á geðheilbrigðisþjónustu að halda eftir ofbeldið.
Á ríkisstjórnarfundi í dag sagði forsætisráðherrann að það ætti ekki að líðast að hermanni væri nauðgað af hryðjuverkamanni á meðan hún væri í þjónustu hersins.
„Það þarf – og mun verða – rannsakað. Við munum sjá til þess að hermaðurinn fái aðstoð,“ sagði Lapid.