Flugmenn fylgjandi því að fara í verkfall

Hjá Lufthansa starfa 5.500 flugmenn.
Hjá Lufthansa starfa 5.500 flugmenn. AFP

Yfirgnæfandi meirihluti flugmanna Lufthansa, stærsta flugfélags Evrópu, er fylgjandi því að fara í verkfall í þeim tilgangi að knýja fram hærri laun.

Stéttarfélag flugmannanna gaf frá sér yfirlýsingu þar sem lögð var áhersla á að stjórnendur fyrirtækisins gætu ekki hundsað þetta merki.

Með þessu eykst verulega hættan á því að flug Lufthansa leggist niður. Aftur á móti hefur ekki enn verið tekin ákvörðun um að grípa til verkfalls, þó meirihluti flugmanna hafi kosið með því í könnun sem gerð var meðal þeirra.

Reiðubúnir að hefja viðræður að nýju

Hlé hafði verið gert á viðræðum stéttarfélagsins og stjórnenda Lufthansa, en stéttarfélagið kveðst nú reiðubúið að hefja viðræður að nýju, enda liggi fyrir enn meiri stuðningur og þrýstingur frá flugmönnunum en áður.

Innan Lufthansa starfa um það bil 5.500 flugmenn, og er þá bæði litið til þeirra sem fljúga farþegavélum og fragtvélum.

Allir þessir flugmenn eru í stéttarfélagi sem kallast Cockpit, eða Stjórnklefinn.

Yfirgnæfandi meirihluti

Í kosningunni sem fram fór um það hvort flugmennirnir væru reiðubúnir til að beita verkfallsrétti sínum, kusu 97,6 prósent flugmanna, sem fljúga farþegavélum, með því. Var hlutfallið enn hærra meðal þeirra sem sinna fragtflugi, en þar kusu 99,3 prósent með verkfallsaðgerðum. Kosningaþátttaka var um 95 prósent.

Flugmennirnir fara fram á 5,5 prósenta launahækkun auk þess sem þeir vilja tryggja vísitöluhækkanir. Loks fer stéttarfélagið fram á tryggingu fyrir því að Lufthansa haldi flotanum sínum óbreyttum, til þess að bæta starfsöryggi flugmannanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert