Hjólreiðaslys varð í dag á svokölluðum Commonwealth leikum í Bretlandi. Í erlendum miðlum hefur slysinu verið lýst sem hræðilegu.
Matt Walls, breskur hjólreiðamaður, kastaðist yfir girðinguna og inn í hóp áhorfenda við Velo garðinn í Lee Valley í Lundúnaborg.
Wallls er Ólympíumeistari í hjólreiðum, en hann skilaði hjólreiðaliðinu bæði gulli og silfri á síðustu Ólympíuleikum.
Hann tók þátt í Commonwealth leikunum til þess að tryggja sér sæti á næsta heimsmeistaramóti í karlaflokki. Eftir slysið þurfti hann meðhöndlun á vettvangi í fjörutíu mínútur áður en hann var fluttur þaðan með sjúkrabíl.
Áhorfendur sem lentu undir honum slösuðust einnig, en hjólið fylgdi með þegar hann kastaðist yfir girðinguna. Einn maður fékk skurð á hendina og ung stelpa þurfti einnig á læknisaðstoð að halda.
Hinn 24 ára gamli Walls hafði verið að reyna að komast hjá því að klessa á hjólreiðamenn sem höfðu skollið saman en missti stjórn á hjólinu og skaust yfir grindverkið.
Frekari dagskrá þennan morguninn var blásin af og áhorfendur voru beðnir um að yfirgefa svæðið meðan viðbragðsaðilar sinntu Walls. Ekki liggja frekari upplýsingar um líðan hans að svo stöddu.