Rússar segjast hafa orðið fyrir drónaárás af hendi Úkraínumanna sem særði sex á skipi rússneska flotans við Sevastópol á Krímskaga.
Fregnirnar bárust um sama leyti og yfirvöld í borginni Mýkólæv í suðurhluta Úkraínu greindu frá því að þeir höfðu orðið fyrir „öflugustu“ skotárás í stríðinu til þessa.
Blaðamenn AFP urðu vitni að mikilli sprengjuárás á bæinn Bakmút í austurhluta landsins eftir að Volodomír Selenskí, forseti landsins, fyrirskiptaði brottflutning íbúa Donetsk-héraðs.
Rússnesk yfirvöld sögðu að lítill sprengibúnað úr dróna, sem líklega hafi verið skotið á loft í nágrenninu, hafi lent á skipi flotans.
Bæjarstjórinn á staðnum kenndi „úkraínskum þjóðernissinnum“ um árásina sem varð til þess að aflýsa þurfti árlegri hátíð rússneska flotans.
Talsmaður hersins í Ódessa í Úkraínu hefur þvertekið fyrir það að Úkraínumenn beri ábyrgð á árásinni og sagði hann hana „hreina ögrun“.
„Frelsun okkar frá hernámsliðinu á Krímskaga mun fara fram á annan og mun skilvirkari hátt,“ skrifaði talsmaðurinn Sergí Bratsjúk á samskiptamiðilinn Telegram.
Yfirvöld í borginni Mýkólæv sögðu fyrr í dag að að minnsta kosti tveir óbreyttir borgar væru látnir eftir sprengjuárásir Rússa.
„Mýkólæv varð fyrir stórri skotárás í dag, sennilega sú öflugasta til þessa,“ sagði Óleksandr Senkevítsj bæjarstjóri borgarinnar á Telegram.
Mýkólæv er sú borg sem stendur hvað næst suðurvígstöðvunum í Úkraínu þar sem hersveitir Kænugarðs leitast nú við að hefja stóra gagnsókn til að endurheimta landsvæði sem tapaðist í kjölfar innrásar Rússa.