Karlmaður á þrítugsaldri var skotinn til bana í borginni Örebro í Svíþjóð í gærkvöldi. Morðrannsókn stendur nú yfir. Enginn hefur enn verið handtekinn vegna málsins.
Í frétt sænska ríkissjónvarpsins kemur fram að tilkynnt hafi verið um árásina rétt fyrir klukkan tíu í gærkvöldi. Aðstandendum hins látna hefur verið tilkynnt um andlátið.
„Við höfum hafið rannsókn vegna morðs,“ sagði Lars Hedelin fjölmiðlafulltrúi Bergslagen lögreglunnar.
Að sögn sænska útvarpsins P4 Örebro átti skotárásin sér stað í íbúðarhverfinu Vivalla í borginni og voru nokkrir vitni að henni.
„Ég get ekki farið út í það sem þau hafa séð,“ sagði Lars Hedelin í útvarpinu.