Tveir voru myrtir í bænum Otta í Guðbrandsdal í Noregi í gær en rannsókn lögreglu þar stendur nú yfir. Fólkið var stungið til bana á heimili rétt utan við miðbæ bæjarins. Árásarmaðurinn kallaði sjálfur eftir aðstoð lögreglu.
Norska ríkisútvarpið greinir frá þessu.
Kripos, rannsóknardeild lögreglunnar í Noregi kom á vettvang í gærkvöldi og stóð rannsókn þeirra og lögreglunnar á svæðinu yfir í alla nótt.
Hinn grunaði sem að tilkynnti morðið er nú í haldi lögreglu. Hann hringdi í neyðarlínuna klukkan sex að staðartíma í gær og sagðist hafa stungið tvær manneskjur til bana.
Kristian Bjaanes, aðgerðarstjóri lögreglu í Otta, sagði í samtali við NRK að þegar að lögregla mætti á staðinn stuttu eftir símtalið hafi þau komið að tveim manneskjum þar sem þau lágu í blóði sínu. Maðurinn var þá handtekinn á staðnum án erfiða eða mótmæla.
Lögmaður hins grunaða sagði við NRK að líðan mannsins hafi ekki verið góð þegar að hann hitti skjólstæðing sinn í gær. Lögmaðurinn sagðist ekki vita hvað vakti fyrir manninum þegar hann framdi verknaðinn. Hann bætti við að geðheilbrigði mannsins væri sérstakt álitamál sem þyrfti að skoða fyrir dómstólum.