„Betra að vera heróínsjúklingur“

„Svo byrjaði ég að reykja hass svona um fermingu, ætli …
„Svo byrjaði ég að reykja hass svona um fermingu, ætli ég hafi ekki verið fimmtán ára eða svo?“ segir Joachim Larsen, einn kantmanna lífsins í Tønsberg í Noregi þar sem hann heldur til á rónabekkjunum við Farmandstorvet með ferfætlingnum Donni. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég átti pabba og mömmu þar til ég varð átta ára, þá fór pabbi frá okkur og eftir það átti ég bara mömmu,“ segir Joachim Larsen, einn af kantmönnum lífsins í Tønsberg í Noregi. Larsen hefst gjarnan við á rónabekkjunum svokölluðu utan við verslunarmiðstöðina Farmandstredet, ekur þar um á rafskutlu með hundinn og besta vin sinn Donni í aftursætinu. Hann er upprunalega frá Nøtterøy, nágrannasveitarfélagi og eyju sunnan við Tønsberg, og komst lengi vel ekki af án þess að sprauta sig eins oft á dag og hann hafði efni á með heróíni, eða hestinum eins og það efni er gjarnan nefnt. Við gefum honum orðið.

„Ég gekk í grunnskóla í Ramnes en ég er frá Nøtterøy og við bjuggum líka í Revetal, við bjuggum úti um allt, ég bjó líka á fósturheimili þegar foreldrar mínir gátu ekki haft mig, við mamma eigum okkur gott samband í dag, get ég sagt þér,“ segir Larsen og brosir gleðisnauðu brosi.

„Á ég að sprauta hundinn?“

Viðmælandi þessi er þó með skemmtnari mönnum, Larsen er vel máli farinn, talar nánast í orðatiltækjum og vakti athygli þess er hér skrifar snemma í fyrrahaust fyrir hnyttin tilsvör sín, lipurt málfar og logandi hatur í garð hins opinbera. Vegurinn að þessu viðtali var nokkuð langur, um þrír mánuðir, enda ekki alltaf á vísan að róa að finna Larsen. Hann hittist þó fyrir á bekkjunum í blíðskaparveðri á mánudaginn, reiðubúinn að fara yfir líf sitt.

„Já, mér fannst nú betra að vera heróínsjúklingur en að lifa á helvítis NAV [Vinnumálastofnun Noregs], þeir eru búnir að taka allt af mér, tóku til dæmis af mér rafskutluna núna um daginn af því að einhverjir öryggisverðir í verslunarmiðstöðinni héldu að ég væri að siga Donni á þá. Þá sagði ég nú bara „Hvað er að ykkur, á ég að sprauta hundinn með deyfilyfjum til að komast hérna inn?““ segir Larsen og hlær við raust.

Donni gerist brúnvölur mjög við blaðamann þótt við séum orðnir …
Donni gerist brúnvölur mjög við blaðamann þótt við séum orðnir mestu mátar eftir regluleg samtöl í vetur og sumar. Fátt skákar stóískri ró dýrsins. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Svo byrjaði ég að reykja hass svona um fermingu, ætli ég hafi ekki verið fimmtán ára eða svo?“ segir Larsen frá, 33 ára gamall í dag, fæddur 13. mars 1989. „Næst fór ég að nota heróín þegar ég var nítján ára, fyrst reykti ég það bara en fór svo að sprauta mig. Að sprauta sig með heróíni er bölvað vesen, þú kaupir annaðhvort fjórðung úr grammi eða hálft gramm. Svo þarftu að sjóða efnið niður með svokölluðu skotvatni og kæla það svo niður í stofuhita. Næst þarftu að finna æð sem þú getur sett dæluna í og þetta er bara tómt rugl,“ segir Larsen og hlær dátt á meðan blaðamaðurinn sem hér skrifar situr náfölur af lýsingunum honum við hlið.

Fatlaður glæpamaður og dópisti

„Ég var glæpamaður, ég seldi dóp og gerði allt mögulegt, en það sem ég átti við þegar ég sagði við þig að það hefði verið betra að vera heróínfíkill er að norska ríkið fer skelfilega illa með okkur sem erum háðir efnum. Ég sat inni fyrir dópsölu og fleira og það var bara ágætt, fínn matur og góður félagsskapur. Svo greindist ég með MS [heila- og mænusigg] þegar ég var 26 ára og síðan hefur líf mitt eiginlega verið á niðurleið,“ segir Larsen sem lifir á bótunum frá NAV, tæpum 20.000 norskum krónum á mánuði, jafnvirði um 280.000 íslenskra króna.

„Já já, þú mátt alveg birta mynd af mér í …
„Já já, þú mátt alveg birta mynd af mér í íslensku dagblaði,“ segir H... glaðbeitt, komin með tvö grömm af hassi sem gera henni kleift að þreyja þorrann til morguns. Við höldum fullu nafni hennar til hlés að sinni. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Auðvitað sel ég ekki hass,“ segir hann og blikkar kankvíslega yfir sólgleraugun, „ég gæti auðvitað aldrei sagt það í viðtali,“ bætir hann við um leið og hann ræðir við H... sem lítur við hjá okkur um stundarsakir. Skömmu síðar kemur J..., ung kona, og fer ekki í grafgötur með erindið. „Jæja, vantar einhvern hass eða pillur áður en ég fer heim?“ Blaðamaður þakkar pent fyrir sig, þá nýbúinn að eiga gott samtal við A... frá Skien sem getur útvegað ketamín, LSD og eiginlega bara allt. „Hringdu bara í mig,“ segir hann og brosir breitt, huggulegur piltur fæddur árið 2000, en við höldum áfram með Larsen í bili.

„Hér er litið á mig sem fatlaðan glæpamann og dópista svo ég er nú ekki hátt skrifaður,“ segir hann og glottir við tönn. „En mér er svo sem alveg sama, ég gat hætt á heróíni, ég fékk bara nóg af því, mér fannst eins og ég væri búinn að borða mig saddan,“ játar fíkillinn ungi sem þó þarf að nota ópíóðalyfið meþadón daglega, til að halda sig frá sprautunni, sem hann fær gegnum svokallað LAR eða legemiddelassistert rehabilitering sem kalla mætti á íslensku meðferð með lyfjum. Er hann þá alveg laus við heróínið í dag?

„Já, ég er það, ég reyki hass og drekk kannski tvo bjóra á dag en ég er ekki eins mikil fyllibytta og allir hér halda,“ segir Larsen og seyrið glott leikur um varir hans. Talið berst þá að fíkniefnamörkuðum í Tønsberg og Ósló, er munur þar á? „Ó já,“ segir Larsen og hlær við raust, „ég kalla Tønsberg Snake City, hér eru allir að hugsa um sjálfa sig, Ósló er mun almennari markaður, hér eru líka margir sem ég kalla „jantehuer“ [vitnar þar í norsku janteloven sem segja í stuttu máli að þú eigir ekki að þykjast vera betri en meðbræður þínir], fólk sem heldur að það eigi heiminn af því að það er með meiri pening en þú í veskinu sínu. Þetta eru hreinir fávitar,“ segir Larsen af slíkum þunga að blaðamaður þakkar guði fyrir að vera skítblankur.

Froland-fangelsið fínt

En fyrir hvað sat hann þá inni? „Æ, ég var að selja eitthvað smá og fékk 60 daga dóm. Svo kláraði ég hann og fór þá í það sem hér í Noregi kallast „avrusning i behandling“ [svipað úrræði og Vernd og önnur áfangaheimili á Íslandi], ég var gripinn heima með slatta af hassi og einhverjar 200 töflur af læknadópi, samt hef ég bara setið inni tvisvar, þetta voru stuttir dómar og fangelsin hér eru fín, það eina sem mér líkaði ekki var þegar ég var settur í tveggja manna klefa og við þurftum að sofa í kojum hvor ofan á öðrum, það þoldi ég ekki,“ segir Larsen en hlær þó við upprifjunina.

„Jæja, vantar einhvern hass eða pillur áður en ég fer …
„Jæja, vantar einhvern hass eða pillur áður en ég fer heim?“ spyr J, ung kona og fastagestur á bekkjunum við torgið. Blaðamaður þakkaði pent fyrir sig neitandi enda nýbúinn að fá tilboð frá ungum manni um ketamín og LSD. Getur maður beðið um meira? mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Froland-fangelsið var til dæmis fínt, það er nýjasta hámarksöryggisfangelsið í Noregi, þar ertu með eigið klósett og eigin klefa, það vil ég hafa, ég var með eigið sjónvarp og gat unnið mér inn 1.100 krónur [15.400 ISK] á dag með því að vinna í eldhúsinu,“ segir hann minnugur góðra daga í norskum hámarksöryggisfangelsum.

Hvað skyldi þá valda því að börn og unglingar í norskum smábæjum, svo sem Tønsberg, byrja að nota fíkniefni? Tilraunagleðin ein?

„Það er hvorki hass né marijúana í sjálfu sér sem gerir það að verkum að unglingar byrja að nota efni,“ svarar Larsen ákveðinn, „það er aðgengið að þessum efnum. Segjum bara að þú seldir mér hass reglulega. Svo einn daginn áttu ekki hass, en þú átt sterkari efni, þú átt heróín, pillur eða amfetamín. Krakkar eru tilraunagjarnir og forvitnir, þeir vilja prófa, sjá hve langt þeir geta komist, í hve mikla vímu. Áfengi og kannabisefni eru vinsælustu vímuefnin, svo verður maður háður skít á borð við heróín og þá getur verið erfitt að snúa til baka,“ segir maður sem þó náði að hætta sinni heróínneyslu en hefur þó sína djöfla að draga.

Níunda sætið í ofskömmtun

„Ég varð að hætta í heróíni þegar ég fékk MS-sjúkdóminn en ég varð líka bara leiður á því,“ heldur Larsen áfram. „Líttu á mig núna, ég er 33 ára, hvernig verð ég þegar ég verð sextugur? Á ég að sitja alla ævina og segja við sjálfan mig að mig langi til að hætta, mig langi til að gera eitthvað annað við líf mitt en að vera í vímu? Ég get enn þá snúið til baka út úr þessu vímulífi og auðvitað fýsir mig það,“ segir hann.

Larsen er ekki ánægður með kerfið í Noregi og öskureiður …
Larsen er ekki ánægður með kerfið í Noregi og öskureiður eftir að rafskutlan var tekin af honum. Hins vegar er hann ánægður með fangelsin sem hann hefur gist. Litlu varð Vöggur feginn. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Hvernig skyldi þá standa á því að Ósló, af öllum stöðum, er ein af heróínhöfuðborgum Evrópu? Árið 2018 var Noregur í níunda sæti í Evrópu á myrkum lista Evrópsku fíkniefnarannsóknarmiðstöðvarinnar The European Monitoring Centre for Drugs and Drug Addiction, öðru nafni EMCDDA, yfir dauðsföll af völdum ofskömmtunar fíkniefna. Bretland á þar skuldlaust toppsæti með Skotland í fararbroddi þar sem tæplega 2.000 manns látast árlega af völdum ofskömmtunar eins og Morgunblaðið greindi nýlega frá.

„Ég veit það ekki, það hefur líklega eitthvað með það að gera hve auðvelt er að smygla efnum til Noregs, þú getur keyrt inn í þetta land á þúsund stöðum,“ svarar Larsen en Morgunblaðið hefur áreiðanlegar heimildir fyrir því frá norskri lögreglu að albanskir innflytjendur hafi verið upphafið að heróínbylgjunni í Ósló – síðan eru þó áratugir.

Norðmenn ekki verstir í Evrópu

„Þegar ég var að nota heróín kostuðu 0,2 grömm 400 krónur [5.600 íslenskar krónur á gengi dagsins í dag], það er svo sem ekki mikið. Núna kostar hálft gramm 500 krónur [7.000 ISK], hundraðkalli meira en þegar ég var í þessu. Hass hækkar hins vegar mun hraðar í verði svo það er kannski skýringin á því hve mikið heróín freistar sumra,“ telur Larsen. „Ég þekki bara til í Ósló og Tønsberg og get ekki tjáð mig um önnur lönd en við Norðmenn erum klárlega ekki verst settir í Evrópu hvað fíkniefnaneyslu snertir. Fíklar eru alls staðar, þú sérð það ekki endilega utan á fólki hverjir eru að nota,“ segir hann enn fremur.

Larsen á sér þann draum að opna meðferðarstöð fyrir unglinga …
Larsen á sér þann draum að opna meðferðarstöð fyrir unglinga og stytta biðlistana eftir meðferð í Noregi. Eins langar hann að flytja með Donni til hlýrra lands, kuldinn á veturna fer illa í MS-sjúkdóminn hans. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Senn líður að lokum fróðlegs spjalls um daglegt líf kantmanna lífsins í Tønsberg, hvað fýsir Larsen þá að gera það sem hann á eftir ólifað? „Ég veit að ég mun eignast fé um síðir, já hlæðu bara,“ segir viðmælandinn við blaðamann sem síst er hlátur í huga. „Mig langar til að opna meðferðarstöð fyrir unglinga, fólk sem segir hreint út að það eigi í vandræðum með neyslu og komist þá beint inn, þurfi ekki að fara í endalausa biðröð og komast svo kannski inn þegar loksins röðin kemur að því, það  getur hreinlega verið of seint. Eins langar mig til að flytja til hlýrra lands með hundinn minn, það er ekki gott að vera með MS hér í Noregi í kuldanum sem er hér um vetur. Ég veit ekkert hvernig það fer, ég skal bara játa það,“ segir Joachim Larsen í Tønsberg að lokum og hundurinn Donni bofsar honum til samlætis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert