Erlendir fjölmiðlar halda áfram að fjalla um eldgosið í Meradölum. Misjafn tónn er í fréttaflutningi ytra.
„Ekki er hægt að lýsa því öðruvísi en að eldgos á Íslandi bjóði upp á stórbrotna sýningu fyrir ferðamenn. Gosið er nálægt aðal flugvelli landsins en ekki hefur enn verið röskun á flugi,“ segir fréttamaður í kvöldfréttum CBS.
„Eldfjall nærri aðal flugvelli Íslands gýs aftur eftir hlé,“ segir fyrirsögn the Washington Post.
Bandaríska fréttastöðin Fox gerir eldgosinu skil og vitnar meðal annars í yfirlýsingu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Segir í fréttinni að það gjósi að meðaltali eldfjall á fjögurra til fimm ára fresti á Íslandi.
„Ísland: Eldfjall nærri Reykjavík gýs í annað sinn í 6.000 ár,“ segir í fyrirsögn Independent og fylgir myndband fréttinni.
New York Post segir: „Eldfjall gaus á miðvikudag á Íslandi í kjölfar mikillar jarðskjálftavirkni í frosna landinu (e. frozen country), eins og sést á myndböndum sem eru að slá í gegn á netinu“. Með fréttinni fylgir myndskeið af gosinu í Fagradalsfjalli í fyrra.
Bloomberg segir frá eldgosinu en þar er sérstaklega tekið fram að ekki sé röskun á flugi og engin mannslíf séu í hættu.
„Eldfjall gýs nærri höfuðborg Íslands á jarðskjálftasvæði,“ segir Reuters og ásamt því að vitna í Veðurstofu Íslands segir fréttamiðillinn frá beinu streymi vefmyndavéla mbl.is og RÚV.
ABC segir sjónarvotta heillaða af „dansandi logum“ þegar eldfjallið Fagradalsfjall gýs í fyrsta skipti í átta mánuði.