Talið er að flugskeyti frá kínverska hernum hafi lent í efnahagslögsögu Japans í fyrsta sinn. Þetta kemur fram í tilkynningu sem varnarmálaráðuneyti Japans sendi frá sér í dag.
Yfirvöld í Kína hafa verið afar ósátt með heimsókn Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, til Taívans og telja hana vera inngrip í innanríkismál landsins. Eftir að Pelosi lenti í Taívan hóf Kína heræfingar á hafsvæði í kringum Taívan. Hluti af suðureyjum Okinawa eyjanna í Japan eru nálægt Taívan.
„Fimm af níu flugskeytum sem skotið var frá Kína eru talin hafa lent innan efnahagslögsögu Japans,“ segir Nobuo Kishi, varnarmálaráðherra Japans.
Hann sagði að Japan hafi mótmælt hernaðaræfingum Kínverja friðsamlega og á diplómatískan hátt. Þá bætti hann því við að vandamálið sé alvarlegt og það hafi áhrif á þjóðaröryggi Japans og á öryggi íbúa landsins.