Áætlað er að fyrsti farmur af korni frá Úkraínu, frá því að innrás Rússa hófst í febrúar, komi til hafnarborgarinnar Trípólí í norðurhluta Líbanon á sunnudagsmorgun.
Skipið Razoni frá Síerra Leóne lagði af stað frá höfninni í Ódessa í Úkraínu snemma morguns á mánudaginn með 26.000 tonn af korni og nam staðar í Tyrklandi degi síðar.
Afhendingin er sú fyrsta samkvæmt samningi sem undirritaður var af hálfu Rússlands og Úkraínu við Sameinuðu þjóðirnar og Tyrkland í júlí. Honum er ætlað að draga úr alþjóðlegri matvælakreppu.
Þá hafa yfirvöld í Úkraínu gefið það út að önnur sextán skip hlaðin korni bíði nú eftir að fara frá úkraínskum höfnum, en þrjú þeirra eiga að sigla í dag.