Rússland tilbúið að ræða fangaskipti án fjölmiðla

Banda­ríska körfuknatt­leiks­kon­an Britt­ney Grin­er hefur verið í haldi lögreglu í …
Banda­ríska körfuknatt­leiks­kon­an Britt­ney Grin­er hefur verið í haldi lögreglu í Rússlandi síðan 17. febrúar. AFP

Yfirvöld í Rússlandi tilkynntu í dag að þau væru tilbúin að hefja viðræður við Bandaríkin um möguleg fangaskipti fyrir banda­rísku körfuknatt­leiks­kon­una Britt­ney Grin­er en hún var dæmd í níu ára fangelsi í gær fyrir fíkniefnalagabrot í Rússlandi. Þau sögðu þó að það þyrfti að gerast án samskipta við fjölmiðla.

Fréttastofa ABC greinir frá þessu.

Griner hefur verið í haldi lögreglu í Rússlandi síðan 17. febrúar eftir að lögreglan í Moskvu, höfuðborg Rússlands, stöðvaði hana á flugvellinum og fundu í fórum hennar rafsígarettur með kannabisolíu. 

Blinken virðir Lavrov ekki viðlits

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segist gera allt í sínu valdi til að reyna sannfæra utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, um að sleppa Griner úr haldi. Blinken og Lavrov voru báðir í Kambódíu á ráðstefnu Samtaka Suðaustur-Asíuþjóða (ASEAN) í dag.

Lavrov sagði í samtali við fjölmiðla eftir ráðstefnuna að Blinken hafi ekki svo mikið sem litið á sig á meðan að á ráðstefnunni stóð og að Blinken hafi ekki gert neinar tilraunir til að sannfæra sig um að sleppa Griner úr haldi fyrir eða eftir fundinn. Aðeins ein manneskja sat á milli þeirra á meðan að á ráðstefnunni stóð en Blinken yrti ekki á Lavrov, að hans sögn.

Lavrov tilkynnti þá að stjórnvöld í Rússlandi væru tilbúin að ræða möguleikann á fangaskiptum við Bandaríkin. Hann tók fram að þær viðræður þyrftu að fara fram með öruggum samskiptaleiðum sem enginn annar hefði aðgang að og í leyni frá fjölmiðlum.

„Ef Bandaríkjamenn reyna aftur að taka þátt í opinberum erindrekstri og gera háværar yfirlýsingar um að þeir ætli að grípa til ákveðinna ráðstafana, þá er það þeirra mál, ég myndi jafnvel segja að það yrði til vandræða fyrir þá,“ sagði Lavrov.

Bandaríkin gætu skipt á Griner fyrir Viktor Bout sem afplánar 25 ára dóm vestanhafs um þessar mundir. Hann var dæmdur fyrir að selja vopn til hryðjuverkasamtaka og fyrir að leggja á ráð um að myrða bandaríska ríkisborgara.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert