Tók með sér gögn í óleyfi

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. AFP

Bandaríska alríkislögreglan, FBI, hefur lagt hald á gögn sem fundust við húsleit á Mar-a-Lago setri Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, í Palm Beach í Flórída.

FBI framkvæmdi húsleit um níuleytið í gærmorgun í tengslum við rannsókn á ólögmætri haldlagningu og eyðileggingu á skjölum frá Hvíta húsinu af völdum Trumps.

Upphaf málsins má rekja til byrjunar þessa árs, þegar Þjóðskjalasafn Bandaríkjanna lét Trump skila 15 öskjum opinberra skjala sem hann tók í óleyfi. Síðar kom í ljós að Trump hafði tekið með sér viðkvæm trúnaðargögn.

Kennir demókrötum um

Trump brást ókvæða við húsleitinni þar sem hann líkti henni við Watergate-hneykslið og vísaði þar til pólitísks hneykslismáls sem kom upp á áttunda áratug tuttugustu aldar þegar upp komst um innbrot í Watergate-skrifstofubygginguna í Washington, höfuðstöðvar Demókrataflokksins.

Það leiddi af sér að þáverandi forseti Bandaríkjanna, repúblikaninn Richard Nixon, sagði af sér.

Þá lýsti Trump því yfir að húsleitin væri róttækum vinstri demókrötum að kenna sem „vilja ekki að ég bjóði mig fram til forseta árið 2024“. Hann segir að þeir muni gera hvað sem er til að stöðva repúblikana og íhaldsmenn í komandi kosningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert