Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, var boðaður í yfirheyrslu í dag hjá ríkissaksóknara New York-ríkis í Bandaríkjunum, vegna rannsóknar á fjármálaviðskiptum Trumps og fyrirtæki hans.
Við yfirheyrsluna beitti Trump fimmta viðauka stjórnarskrárinnar fyrir sig, sem veitir fólki rétt til að neita að bera vitni gegn sjálfu sér.
Frá þessu greindi Trump í færslu á samfélagsmiðlinum Truth Social, Wall Street Journal greinir frá.
Í færslunni segir Trump að ríkissaksóknarinn sé rasískur og sagði hann yfirheyrsluna vera framhald af mestu nornaveiðum í sögu Bandaríkjanna.
„Það er verið að ráðast á mig og fyrirtækið mitt úr öllum áttum. Bananalýðveldi!“ skrifar fyrrverandi forsetinn.
Letitia James, talsmaður ríkisstjórans, hefur ekki viljað tjá sig um málið, og ekki heldur lögmaður Trumps.
Yfirheyrslan tengist rannsókn, sem hefur staðið yfir frá árinu 2019, þar sem verið er að skoða hvort Trump og fyrirtæki hans hafi gefið upp rangar upplýsingar til banka og skattayfirvalda í þeim tilgangi að græða á því.
Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu ríkissaksóknarans er búið að safna mikilvægum sönnunargögnum sem benda til þess að Trump hafi notað villandi eignamat til að fá lán, tryggingavernd og skattafslátt.
Trump hefur neitað allri sök og líkt rannsókninni við nornaveiðar.
Líklegt er að yfirheyrslan, þar sem Trump verður eiðsvarinn, verði ekki gerð opinber almenningi strax. Hluti hennar gæti þó orðið opinber í gegnum dómsskjöl eða ef ríkisstjórinn höfðar dómsmál á meðan að réttarhöldunum stendur.
Boðunin í yfirheyrsluna kemur nú, skömmu eftir að framkvæmd var húsleit á Mar-a-Lago setri Trumps, í Palm Beach í Flórída, vegna trúnaðargagna sem Trump hafði ekki skilað við lok embættistíðar sinnar eins og lög gera ráð fyrir. Upphaf málsins má rekja til byrjunar þessa árs, þegar Þjóðskjalasafn Bandaríkjanna lét Trump skila 15 öskjum opinberra skjala sem hann hafði í fórum sínum í óleyfi.