Bornar rangar niðurstöður á brýn

Danielle Dixson er þungum sökum borin hvað rannsóknir hennar á …
Danielle Dixson er þungum sökum borin hvað rannsóknir hennar á sviði sjávarlíffræði snertir. Ljósmynd/Háskólinn í Delaware

Háskólinn í Delaware í Bandaríkjunum telur sjávarlíffræðingin Danielle Dixson, er þaðan ritar fræðigreinar, hafa gerst seka um alvarlega handvömm og falsanir á rannsóknarniðurstöðum á lífvænleika sjávarvistkerfa í skrifum sínum, meðal annars um ástand Stóra kóralrifsins, Great Barrier Reef, við austurströnd Ástralíu.

Hefur háskólinn komist að þeirri niðurstöðu að rannsókn sem Dixson fékk birta í tímaritinu Science árið 2014 hafi verið byggð á sandi og fjarlægði ritið grein hennar af vefútgáfu sinni á mánudaginn.

Samkvæmt rannsóknum nefndar á vegum háskólans, sem Science var gert kunnugt um, eru rannsóknarniðurstöður Dixsons um áhrif aukins koltvísýrings í andrúmslofti á vistkerfi sjávar, þar á meðal fiska og kóralrifið við Ástralíu, rangar.

Neitar að tjá sig

„Nefndinni var brugðið við að verða ítrekað vitni að slælegum vinnubrögðum, hæpinni skráningu gagna, afritun efnis milli skjala, ítrekuðum rangfærslum og brotum á siðareglum um dýratilraunir,“ segir í skýrslu nefndarinnar um rannsóknir Dixsons.

Dixson hefur fram til þessa neitað að tjá sig við Science og aðra fjölmiðla um það sem henni er borið á brýn og segir lögmaður hennar, Kristina Larsen, í samtali við ritið að skjólstæðingur hennar neiti öllum áburði af festu og muni áfrýja öllum áfellisdómum um misferli.

Sjávarlíffræðingar eru ekki á eitt sáttir um ásakanirnar og kveða sumir þeirra uppljóstrara hafa séð sér leik á borði til að skara eld að eigin köku með því að rægja Dixson.

Science

Insidehighered.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert