Óskar eftir að leitarheimildin verði opinberuð

Merrick Garland, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hélt blaðamannafund vegna málsins.
Merrick Garland, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hélt blaðamannafund vegna málsins. AFP

Dómsmálaráðuneytið í Bandaríkjunum skilaði inn beiðni til dómstóls í Flórída um að leitarheimildin til húsleitar á heimili Donalds Trump, verði gerð opinber, þetta kemur fram í frétt Reuters

Þetta staðfesti Merrick Garland dómsmálaráðherra á blaðamannafundi sem hann boðaði til og tjáði sig í fyrsta skipti um atburðarásina. 

Lögmaður Trumps fékk afrit af beiðninni á mánudag, þegar húsleitin var gerð, að sögn Garland. Þá benti hann á að Trump hafi sjálfur séð um að greina frá atburðarásinni, en ekki ráðuneytið. 

Rökstuddur grunur um ólöglega varðveislu

Húsleitin sem um ræðir tengist meintum misbrestum við meðferð skjala. Alríkislögregla Bandaríkjanna hafði sýnt fram á rökstuddan grun um að Trump hefði enn í fórum sínum opinber skjöl sem hann hefði átt að skila á bandaríska þjóðskjalasafnið samkvæmt bókstaf laganna, en ekki gert. 

Alríkisdómstóll Bandaríkjanna veitti leitarheimildina þegar lögreglan sýndi fram á umræddan grun. 

Flokksfélagar og stuðningsmenn Trump hafa gagnrýnt alríkislögregluna og dómsmálaráðuneytið opinberlega, aðgerðunum hefur verið líkt saman við nornaveiðar og pólitískar árásir. Garland ávarpaði þessa gagnrýni og sagði hana ósanngjarna. 

Í yfirlýsingu frá Trump segir að lögmenn hans og aðrir fulltrúar hafi sýnt fullan samstarfsvilja og að gott samband hafi myndast milli þeirra og alríkislögreglunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert