Ráðist var á bresk-indverska rithöfundinn Salman Rushdie er hann var að undirbúa fyrirlestur í New York-borg í Bandaríkjunum í dag.
Vitni urðu að því þegar maður ruddist upp á svið í Chautauqua-stofnuninni þar sem fyrirlesturinn átti að fara fram og réðst á Rushdie. Rushdie lá í gólfinu er árásarmaðurinn var tekinn höndum.
Lögreglan í New York hefur staðfest að Rushdie hafi verið stunginn í hálsinn. Fram kemur í tilkynningu lögreglu að Rushdie hafi verið fluttur með þyrlu á sjúkrahús en ekki er vitað um líðan hans að svo stöddu. Þá segir að árásarmaðurinn sé í haldi lögreglu.
NY State Police: "On August 12, 2022, at about 11 a.m., a male suspect ran up onto the stage and attacked Rushdie and an interviewer. Rushdie suffered an apparent stab wound to the neck, and was transported by helicopter to an area hospital. His condition is not yet known." pic.twitter.com/W1SgRti1pz
— Dan Linden (@DanLinden) August 12, 2022
Bók Rushdie, Söngvar Satans, olli miklu fjaðrafoki þegar hún kom út árið 1988 og fékk Rushdie fjölmargar líflátshótanir vegna ásakana um guðlast en bókin er gagnrýnin á múhameðstrú og er bönnuð víða um heim.
Ayatollah Khomeini, þáverandi erkiklerkur Írans, fyrirskipaði að Rushdie skyldi líflátinn árið 1989. Árið 1998 lýsti ríkisstjórn Íran því þó yfir að hún ætlaði ekki að framfylgja dómnum.