Bandaríska alríkislögreglan FBI fjarlægði um 20 kassa af skjölum, þar af sum sem merkt voru sem háleynileg, ljósmyndaalbúm, handskrifuð bréf og náðunarbréf Trumps fyrir Roger Stone þegar hún framkvæmdi húsleit sína í Mar-a-Lago á mánudaginn. Þá var þar einnig að finna upplýsingar um forseta Frakklands.
Í umfjöllun Wall Street Journal kemur fram að skjölin hafi verið í ellefu mismunandi flokkum, og að sum þeirra hefðu verið svo háleynileg að þeim væri einungis ætlað að vera sýnileg í sérstökum gagnaherbergjum sem bandaríska alríkið hefur yfir að ráða. Áður hafði komið fram að FBI hefði leitað í Mar-a-Lago að trúnaðargögnum um kjarnorkuvopn.
Wall Street Journal byggir umfjöllun sína á sjö blaðsíðna skjali, sem inniheldur húsleitarheimild alríkislögreglunnar, sem og þriggja blaðsíðna lista yfir þau gögn sem heimildinni var ætlað að ná yfir. Þar kemur einnig fram að Trump hafi geymt upplýsingar um Frakklandsforseta í Mar-a-Lago, en óvíst er hvers eðlis þær upplýsingar voru.