Bresk-indverski rithöfundurinn Salman Rushdie er á batavegi að sögn Andrews Wylie, umboðsmanns hans.
Rushdie var stunginn oftar en tíu sinnum er hann var að flytja fyrirlestur í New York-ríki í Bandaríkjunum á föstudag. Í morgun var greint frá því að Rushdie væri kominn úr öndunarvél og gæti tjáð sig.
BBC greinir frá því að Wylie sagði fyrir stuttu að endurhæfing rithöfundarins myndi taka langan tíma. Áverkar hans væru alvarlegir en að ástand Rushdie stefndi í rétta átt.
Rushdie hefur mátt þola líflátshótanir af hálfu íslamista í rúma þrjá áratugi eftir að Khomeini, þáverandi erkiklerkur Írans, lýsti yfir dauðadómi á hendur honum fyrir bókina Söngva Satans.