Bresk-indverski rithöfundurinn Salman Rushdie er kominn úr öndunarvél eftir að hafa verið stunginn margsinnis á sviði í New York-ríki í Bandaríkjunum á föstudag.
BBC greinir frá því að Rushdie geti nú tjáð sig en Andrew Wylie, umboðsmaður Rushdies, sagði á föstudag að allar líkur væru á að Rushdie myndi missa annað augað.
Árásarmaðurinn heitir Hadi Matar og er 24 ára gamall. Hann er nú í haldi lögreglu fyrir að hafa stungið Rushdie oftar en tíu sinnum. Matar neitar hins vegar sök en hann fæst ekki látinn laus gegn tryggingu.
Rushdie hefur mátt þola líflátshótanir af hálfu íslamista í rúma þrjá áratugi eftir að Khomeini, þáverandi erkiklerkur Írans, lýsti yfir dauðadómi á hendur honum fyrir bókina Söngva Satans.
Hér má sjá myndskeið sem tekið var stuttu eftir að árásin átti sér stað.