Írönsk stjórnvöld neita alfarið sök í árás sem gerð var á rithöfundinn Salman Rushdie á föstudag, en kenna bók rithöfundarins, Söngva Satans, og stuðningsmönnum hans um voðaverkið.
Nasser Kanaani, talsmaður fyrir utanríkisráðuneyti Írans, sagði í yfirlýsingu að „enginn hefði rétt á því að kenna Íran um standa að baki stunguárásinni sem skildi Rushdie eftir í öndunarvél.“
„Varðandi árásina á Rushdie teljum við að þeir einu sem eiga einhverja sök í málinu séu Rushdie sjálfur og stuðningsmenn hans,“ sagði Kanaani en það er AP sem greinir frá. „Það hefur enginn rétt á að ásaka Íran um neitt í þessu máli.“
Eins og fram hefur komið var Rushdie ítrekað stunginn, þar á meðal í hálsinn, er hann var að undirbúa fyrirlestur í Chautauqua-stofnuninni í New York í Bandaríkjunum á föstudag.
Greint var frá því í gær að Rushdie væri kominn úr öndunarvél og gæti tjáð sig. Árásarmaðurinn, Hadi Matar, er í haldi lögreglu en hann hefur neitað sök í málinu.
Rushdie hefur mátt þola líflátshótanir af hálfu íslamista í rúma þrjá áratugi eftir að Khomeini, þáverandi erkiklerkur Írans, lýsti yfir dauðadómi á hendur honum fyrir bókina Söngva Satans.