Rushdie beri sjálfur ábyrgð á árásinni

Indversk-breski rithöfundurinn Salman Rushdie varð gríðarlega umdeildur í kjölfar útgáfu …
Indversk-breski rithöfundurinn Salman Rushdie varð gríðarlega umdeildur í kjölfar útgáfu Söngva satans árið 1988 og hlaut dauðadóm, fatwa, írönsku klerkastjórnarinnar fyrir guðlast í garð íslamskra. AFP

Írönsk stjórnvöld neita alfarið sök í árás sem gerð var á rithöfundinn Salman Rushdie á föstudag, en kenna bók rithöfundarins, Söngva Satans, og stuðningsmönnum hans um voðaverkið.

Nasser Kanaani, talsmaður fyrir utanríkisráðuneyti Írans, sagði í yfirlýsingu að „enginn hefði rétt á því að kenna Íran um standa að baki stunguárásinni sem skildi Rushdie eftir í öndunarvél.“

„Varðandi árásina á Rushdie teljum við að þeir einu sem eiga einhverja sök í málinu séu Rushdie sjálfur og stuðningsmenn hans,“ sagði Kanaani en það er AP sem greinir frá. „Það hefur enginn rétt á að ásaka Íran um neitt í þessu máli.“

Á langt bataferli framundan

Eins og fram hefur komið var Rushdie ítrekað stunginn, þar á meðal í hálsinn, er hann var að undirbúa fyrirlestur í Chautauqua-stofn­un­inni í New York í Bandaríkjunum á föstudag. 

Greint var frá því í gær að Rushdie væri kominn úr öndunarvél og gæti tjáð sig. Árásarmaðurinn, Hadi Matar, er í haldi lögreglu en hann hefur neitað sök í málinu.

Rus­hdie hef­ur mátt þola líf­láts­hót­an­ir af hálfu íslam­ista í rúma þrjá ára­tugi eft­ir að Khomeini, þáver­andi erkiklerk­ur Írans, lýsti yfir dauðadómi á hend­ur hon­um fyr­ir bók­ina Söngva Satans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka