Japanskur lögreglumaður drakk sig fullan, sofnaði á götunni og týndi rannsóknargögnum sem innihéldu persónuupplýsingar um 400 manns. Þeirra á meðal er einstaklingur grunaður um glæp.
Lögreglumaðurinn sem er 49 ára týndi poka með gögnunum einhvern tíman á milli klukkan 11 um kvöld á föstudaginn og klukkan 5 um morguninn á laugardaginn, segir talsmaður lögreglu við AFP í gær.
Fjölmiðlar í Japan vitna í lögregluna þar í landi og segja að lögreglumaðurinn hafi farið út að drekka með vinnufélögum sínum og sofnað á leiðinni heim með pokann.
Þegar hann vaknaði nálægt lestarstöð gat hann ekki fundið pokann með gögnunum.