Um þrjúhundruð slökkviliðsmenn vörðu síðustu nótt í að berjast við mikla skógarelda sem geisa nú í suðuasturhluta Spánar.
Skógareldarnir hafa brennt sér leið í gegnum 10 þúsund hektara nálægt svæði sem er þekkt fyrir að vera torfarið.
Upptök eldsins má rekja til eldingu sem laust niður á Vall de Ebo svæðinu í Alicante seint á laugardag og hafa eldar síðan dreifst óðfluga með sterkum vindum. Samkvæmt yfirvöldum í Valencia-borg hafa meira en þúsund manns þurft að yfirgefa svæðið vegna eldanna.
Gabriela Bravo, innviðaráðherra á svæðinu, sagði í samtali við sjónvarpsstöðina Antena 3 að nóttin hafi verið erfið og flókin. Þrjúhundruð slökkviliðsmenn börðust við eldana með aðstoð 24 flugvéla og þyrla.
Slökkviliðsmenn voru einnig að berjast við tvo aðra skógarelda norður frá Valencia-borg, þar sem hundruð slökkviliðsmanna og að minnsta kosti 10 slökkviliðsflugvélar tóku þátt í aðgerðunum.
Enn norðar voru slökkviliðsmenn í Aragon héraðinu að vonast til þess að ná tökum á öðrum eldsvoða sem braust út á laugardag, en þar hafa meira en 6000 hektarar brunnið og 1.500 manns neyðst til að flýja heimili sín.
Skógareldar sem geisað höfðu í viku í Serra da Estrela þjóðgarðinum í Portúgal, og náðust loks tök á á föstudag spruttu aftur upp í dag samkvæmt bæjaryfirvöldum þar í landi.
Fleiri en þúsund slökkviliðsmenn voru kallaðir inn til að berjast gegn eldunum en 15 þúsund hektarar höfðu þegar orðið þeim að bráð.
Metfjöldi skógarelda hafa geisað í Evrópu í ár, þá sérstaklega í Frakklandi, Grikklandi og Portúgal.
Þá hafa 391 skógareldar geisað á Spáni í ár og lagt í rúst 271.020 hektara af landi samkvæmt nýjustu tölum frá Upplýsingastöð Evrópu um skógarelda (EFFIS).
Svipaða sögu má segja um skógarelda í Portúgal, en þeir hafa verið 191 talsins það sem af er ári og brennt sér leið í gegnum 84.717 hektara af landi samkvæmt tölum frá EFFIS.
Vísindamenn segja að hlýnun jarðar, sem til komin er af mannavöldum, sé ástæðan fyrir hitabylgjum og þurrkum í auknum mæli.