Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) leitar nú eftir aðstoð frá almenningi við að finna nýtt nafn á apabólusjúkdóminn sem náð hefur hraðri útbreiðslu á undanförnum mánuðum. Þetta tilkynnti stofnunin í dag.
WHO greindi frá því á dögunum að heiti sjúkdómsins væri til endurskoðunar þar sem það gæti leitt af sér fordóma í garð apa, en þeir hafa átt lítinn þátt í útbreiðslu sjúkdómsins, sem og í garð heimsálfunnar Afríku, sem dýrin eru oft bendluð við.
Nýleg dæmi eru um það að fólk hafi ráðist á apa í Brasilíu vegna hræðslu við sjúkdóminn sem þeir eru bendlaðir við nafnsins vegna.
„Apabóla sem smitast til manna var gefið nafn undir öðru regluverki en því sem er í gildi núna þegar kemur að því að gefa sjúkdómum nöfn,“ sagði Fadela Chaib, talsmaður WHO við fréttamenn í Genf.
„Við viljum finna nafn sem elur ekki af sér fordóma,“ bætti Chaib við og sagði að stofnunin væri opin fyrir tillögum frá fólki í gegnum vefsíðu sína.
Sjúkdómurinn fékk nafnið apabóla þegar apar á rannsóknarstofu í Danmörku greindust árið 1958 með húðsjúkdóm sem svipaði til apabólu. Þó er ekki talið að sjúkdómurinn sé upprunninn frá öpum.
Samkvæmt nýjustu tölum frá CDC hafa yfir 31 þúsund manns greinst með apabólu á heimsvísu frá áramótum og 12 látið lífið. Sjúkdómurinn náði hraðri útbreiðslu í maí en einkenni hans eru meðal annars hiti, þreyta, vöðvaverkir og fleiri flensulík einkenni.
Einnig geta fylgt aumir og stækkaðir, bólgnir eitlar, til dæmis í nára eða á hálsi. Útbrotin eru fyrst flöt en síðan myndast bólur og loks blöðrur sem eru vökvafylltar eins og fram kemur á vefsíðu landlæknis.