Hljóta skaðabætur vegna sýkts blóðs áratugum síðar

Hvert fórnarlamb mun hljóta skaðabætur að andvirði um 16,7 milljóna …
Hvert fórnarlamb mun hljóta skaðabætur að andvirði um 16,7 milljóna króna. mbl.is/Ómar

Bresk yfirvöld lýstu því yfir í dag að skaðabætur yrðu greiddar þeim þúsundum manna sem smituðust af HIV og lifrarbólgu C í gegnum blóðgjöf sem þau þáðu af heilbrigðisþjónustu ríkisins á áttunda, níunda og tíunda áratugi síðustu aldar.

Þetta var ákveðið eftir að Brian Langstaff, sem fór fyrir opinberri rannsókn á málinu, mælti með því að greiða fórnarlömbum bætur.

Samþykkt hefur verið að greiða hverjum og einum til bráðabirgða 100.000 pund, sem samsvarar um 16,7 milljónum króna, en upphæðin verður greidd til eftirlifandi fórnarlamba og maka látinna fórnarlamba. Áætlað er að hún verði afgreidd fyrir lok október. 

Mörg fórnarlömb fengu blóðgjöf vegna dreyrasýki

Stór hluti þeirra sem smituðust fengu blóðgjöfina til meðferðar á dreyrasýki, en það er arfgengur blæðingarsjúkdómur sem einkennist af ónógri blóðstorknun.  

Áætlað er að um 2.400 sjúklingar hafi látist eftir að hafa smitast í gegnum blóðgjafirnar. 

Þá hafi heilbrigðisþjónustan keypt blóðbirgðir frá Bandaríkjunum vegna skorts í Bretlandi og hafi blóðgjafar meðal annars verið fangar og aðrir sem eru í mikilli hættu á smiti.

Niðurstaða Hæstaréttar frá árinu 2017 heimilaði fórnarlömbum og fjölskyldum þeirra að fara fram á skaðabætur í gegnum breska réttarkerfið, en áætlað er að fjölskyldur látinna fórnarlamba hljóti ekki bætur fyrr en á næsta ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka