Það kom árásarmanni Salman Rushdie, Hadi Matar, á óvart að Rushdie hefði lifað árásina af. Frá þessu segir Matar í viðtali við New York Post
Líkt og áður hefur verið greint frá var Rushdie ítrekað stunginn, þar á meðal í hálsinn, er hann var að undirbúa fyrirlestur í Chautauqua-stofnuninni í New York í Bandaríkjunum á föstudag.
mbl.is/frettir/erlent/2022/08/14/rushdie_ur_ondunarvel_og_getur_tjad_sig/
Hadi Matar sem er 24 ára er í haldi lögreglu en hann hefur neitað sök í málinu.
„Þegar ég heyrði að hann hefði lifað af, ætli það hafi ekki komið mér á óvart,“ sagði Matar í viðtalinu. New York Post tóku viðtal við hann í gegnum fjarfundarbúnað úr fangelsinu.
Matar sagði ekki til um það hvort árásin hefði verið innblásin af því þegar Ayatollah Ruhollah Khomeini, þáverandi erkiklerkur Írans, lýsti yfir dauðadómi á hendur rithöfundinum fyrir bókina Söngva Satans árið 1989. Matar segist hafa „lesið nokkrar blaðsíður“ af bókinni.
„Ég ber virðingu fyrir Ayatollah. Mér finnst hann frábært manneskja. Það er það eins sem ég vil segja um það,“ svaraði hann þegar gengið var á hann um tenginguna við erkiklerkinn fyrrverandi.
Matar margendurtók í viðtalinu að hann teldi Rushdie ekki vera góða manneskju og að honum líkaði ekki við hann.
„Hann réðst á Íslam, hann réðst á trú okkar, trúarbrögðin,“ hélt hann áfram.
Matar kvaðst ekki vera í neinu sambandi við Byltingarher Írans. Hann sagðist hafa frétt af því að Rushdie myndi vera með fyrirlestur þennan örlagaríka dag á Twitter fyrir nokkru.