Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, hefur þurft að svara harðri gagnrýni frá stjórnarandstöðuflokkum finnska þingsins eftir að myndbönd sem sýna hana dansandi og syngjandi fóru á dreifingu.
Riikka Purra, leiðtogi eins stjórnarandstöðuflokks, hefur krafist þess að Marin taki eiturlyfjapróf. Marin, sem er 36 ára, neitar því að hafa neytt ólöglegra fíkniefna. Segist hún einungis hafa neytt áfengis.
Hér að neðan má sjá umrædd myndbönd sem búið er að klippa í eitt myndskeið.
Finland’s Prime Minister @MarinSanna is in the headlines after a video of her partying was leaked today.
— Visegrád 24 (@visegrad24) August 17, 2022
She has previously been criticized for attending too many music festivals & spending too much on partying instead of ruling.
The critics say it’s not fitting for a PM. pic.twitter.com/FbOhdTeEGw
Að sögn Marin voru myndskeiðin til einkanota, tekin á einkaheimili fyrir nokkrum vikum. Segist hún hafa haldið að myndskeiðin færu ekki fyrir augu almennings.
Hún hafi þá neytt lítils magns af áfengi en engra fíkniefna.
„Ég dansaði, söng og djammaði – fullkomlega löglegir hlutir. Og ég hef aldrei verið í aðstæðum þar sem ég hef séð aðra neyta fíkniefna,“ sagði Marin við blaðamenn í dag áður en hún hélt á þingflokksfund, en fjallað er um málið á vef finnska ríkisútvarpsins.
Segir hún ekkert óeðlilegt við hegðun sína, hún eigi sér líf utan vinnu. Kveðst hún ekki ætla að breyta persónu sinni og vonast til að finnska þjóðin samþykki það.