Orkumálaráðherra Úkraínu, Herman Halústsénkó, segir ástandið í landinu enn alvarlegra nú þegar Rússar hafa tekið að beina sprengjum sínum í átt að Saporisjía, en þar er að finna stærsta kjarnorkuver Evrópu.
Rússneskar hersveitir hafa náð yfirráðum á svæðinu en Úkraínumenn hafa reynt að biðla til þeirra að láta það eftir, í ljósi hættunnar sem því fylgir. BBC greinir frá.
Öryggissveitir í Úkraínu hafa undanfarið verið í þjálfun, til þess að undirbúa viðbrögð við mögulegri kjarnorkusprengingu á svæðinu.
Síðastliðnar tvær vikur hefur verið linnulaus stórskotahríð umhverfis kjarnorkuverið.
Atlantshafsbandalagið hefur nýlega kallað eftir því að fulltrúum Sameinuðu þjóðanna verði hleypt inn fyrir svæðið, og bent á að yfirtaka Rússa þar skapi gríðarlega hættu bæði fyrir Úkraínu og nágrannalönd.
Innviðaráðherra Úkraínu segir ómögulegt að tryggja öryggi kjarnorkuversins, meðan rússneskar hersveitir hafa svæðið undir sínum yfirráðum.
Íbúum á svæðinu stendur ekki á sama og eru teknir að streyma frá svæðinu, af ótta við að kjarnorkuverið verið fyrir sprengju og leggi allt í eyði umhverfis sig.