Ung stúlka á meðal fimm látinna á Korsíku

Eyðilagður bíll við tjaldsvæði á Korsíku, skammt frá þar sem …
Eyðilagður bíll við tjaldsvæði á Korsíku, skammt frá þar sem stúlkan lést. AFP/Pascal Pochard-Casabianca

Fimm létust í miklum stormi, með vindhviðum allt að 62 metrum á sekúndu, á frönsku eyjunni Korsíku í dag, þar á meðal þrettán ára stúlka.

Stúlkan lést þegar tré féll á sumarhús hennar nálægt tjaldsvæði á vesturströnd Korsíku, þar sem níu aðrir slösuðust, að sögn björgunarsveitarmanna.

Á nálægri strönd í Coggia lést 72 ára kona eftir að þak á kofa fauk af og lenti á ökutæki hennar. Norðar á eyjunni lést 46 ára maður og 23 ára ítölsk kona slasaðist alvarlega.

Þá greindu siglingayfirvöld frá því að sjómaður hefði farist, sem og kona á kajak, en tilkynnt var um tugi slasaða í bátum.

Fólk pakkar því sem eftir er af eyðilögðum tjöldum eftir …
Fólk pakkar því sem eftir er af eyðilögðum tjöldum eftir óveðrið. AFP/Pascal Pochard-Casabianca

Tveir látnir á Ítalíu

Er þetta þriðji dagur mikillar rigningar um stóran hluta Suður-Frakklands sem hafði valdið flóðum og eldingum, en engin slys urðu á fólki fyrr en nú. Þá eru 35 þúsund heimili á Korsíku án rafmagns.

Samkvæmt veðurstofu í Frakklandi færist stormurinn nú í átt að Ítalíu. Tveir létust í Toskana eftir að hafa lent undir trjám í ofsaveðri í dag. Að sögn yfirvalda voru 100 aðrir fluttir frá svæðinu vegna veðursins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert