Auður Elín Sigurðardóttir, starfsmaður í verslun á fyrstu hæð í verslunarmiðstöðinni Emporia í Malmö, heyrði fjóra til fimm skothvelli skömmu áður en fólk kom öskrandi inn í verslunina til hennar síðdegis í dag.
Skotárás átti sér stað í verslunarmiðstöðinni og staðfest hefur verið að tveir hafi særst. Eftir því sem hún best veit var skotið á tveimur stöðum, en önnur árásin átti sér stað rétt við verslunina þar sem hún starfar.
Blaðamaður mbl.is náði tali af Auði þar sem hún var stödd á veitingastað á efstu hæð hótels við hliðina á Emporia, en þangað flúðu margir eftir árásina og bíða upplýsinga frá lögreglu.
„Fólk kom öskrandi inni í búðina til okkar og við hlupum inn á lager og hleyptum öllum með okkur þangað inn. Bak við lagerinn er sameiginlegt rými sem við fórum inn í og læstum að okkur. Við þurftum að fela okkur þar inni og þurftum að reyna að hafa eins mikla þögn og við gátum. Það voru margir grátandi, þetta var hræðilegt,“ segir Auður.
Starfsfólkið hringdi svo í lögreglu og öryggisverði verslunarmiðstöðvarinnar og fékk þær upplýsingar að halda kyrru fyrir í rýminu og láta lítið fyrir sér fara.
„Svo fann ein kona sem ég vinn með flóttaleið. Við gátum hlaupið út í gegnum lítinn gang. Við tókum smá áhættu þarna, en við hlupum út með kúnnunum, inn annan gang og niður tröppur sem leiddu okkur að vörumóttökusvæði á bakhliðinni.“
Hópurinn fór svo yfir á hótelið við hliðina á þar sem þau ætla að reyna að taka því rólega þangað til þau fá að vita hvað þau eiga að gera.
Auður segir enn miklar lögregluaðgerðir í gangi. Lögreglumenn séu úti um allt, meðal annars á þaki Emporia. Þá sé enn fólk inni í verslunarmiðstöðinni þó hún hafi verið rýmd. „Mitt fólk þekkir fólk sem er enn að fela sig inni á göngunum.“
Hún hefur heyrt að um uppgjör á milli glæpagengja hafi verið að ræða, frekar en hryðjuverkaárás, en veit það auðvitað ekki með vissu. „Það var skotið á tveimur stöðum, með Emporia fulla af fólki.“
Auður segir alla í áfalli eftir þessa atburði. „Ég er í sjokki en ég reyni að halda ró minni fyrir starfsfólkið mitt sem er auðvitað líka allt í sjokki. Þau hafa staðið sig rosalega vel.“
Það hvarflaði aldrei henni að svona lagað gæti gerst í hennar umhverfi. „Ég bjóst aldrei við þessu. Þetta gerðist auðvitað í Fields en við héldum að þetta myndi aldrei gerast hér,“ segir Auður og vísar til skotárásar í verslunarmiðstöðinni Fields í Kaupmannahöfn í júlí, þar sem þrír létust.