Tók fíkniefnapróf í dag

Sanna Marin vonar að fólk geri sér grein fyrir að …
Sanna Marin vonar að fólk geri sér grein fyrir að hægt er að aðskilja vinnu og einkalíf. AFP/Roni Rekomaa

Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, hefur greint frá því að hún hafi tekið fíkniefnapróf, en hún hefur þurft að svara harðri gagnrýni eftir að myndbönd sem sýna hana syngja og dansa fóru í dreifingu. Marin tók prófið í dag og niðurstöðurnar eru væntanlegar í næstu viku. BBC greinir frá.

Rikka Purra, leiðtogi stjórnarandstöðuflokks, krafðist þess fyrr í vikunni að Marin tæki fíkniefnapróf og hún sagðist ekkert hafa á móti því.

Marin hefur sagt að hún hafi ekki gert neitt ólöglegt, hún hafi aldrei neytt fíkniefna eða verið í aðstæðum þar sem hún hafi séð aðra neyta fíkniefna. Hún hafi einungis neytt lítils magns áfengis þegar myndböndin voru tekin.

Segir hugsun sína hafa verið skýra 

„Ég prófaði ekki einu sinni fíkniefni á unglingsárunum,“ sagði Marin á blaðamannafundi í dag, en hún tók fíkniefnaprófið til að taka af allan vafa um að hún hefði notað fíkniefni.

Hún var spurð út í það á fundinum hvort hún hefði getað tekið pólitískar ákvarðanir í skyndi þegar hún var að skemmta sér, ef það hefði verið nauðsynlegt. Marin svaraði því til að hún myndi ekki eftir að slíkt tilfelli hefði komið upp að forsætisráðherra hefði þurft að fara þinghúsið um miðja nótt.

„Ég tel að hugsun mín hafi verið nokkuð skýr. Það voru engir fundir bókaðir dagana sem ég var að skemmta mér.“

Marin sagði að þrátt fyrir að hún hefði haft vitneskju um að verið væri að taka myndbönd af henni, hafi það komið henni í uppnám að þau hafi komið fyrir sjónir almennings. „Ég treysti því að fólk geri sér grein fyrir því að hægt er að aðskilja vinnu og einkalíf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert