Ítalskir fjölmiðlar vara við afskiptum Rússa af kosningum

Ítalska þingið.
Ítalska þingið. AFP

Stærstu fjölmiðlarnir á Ítalíu vöruðu við mögulegum afskiptum stjórnvalda í Rússlandi af væntanlegum kosningum á Ítalíu, á forsíðum sínum í föstudagsblaðinu í dag.

Er þetta svar fjölmiðlanna við orðum Dimítrí Medveded, fyrrum forseta Rússlands, en hann sagði í gær að Evrópubúar ættu að refsa ríkisstjórnum sínum fyrir heimskulegar ákvarðanir.

„Takið til handa, nágrannar í Evrópu! Látið í ykkur heyra! Heimtið ábyrgð!“ sagði Medveded á Telegram, en hann var forseti Rússlands 2008-2012 og forsætisráðherra 2012-2020.

Ásaka Rússa um að skapa ólgu

Forsíður fjölmiðlanna la Repubblica og Il Messaggero vöruðu við mögulegum afskiptum Rússa í dag, og Corriere della Sera ásakaði Rússa um að reyna að skapa ólgu í í ítölskum stjórnmálum fyrir kosningar.

Mario Draghi, sem er að stíga niður sem forsætisráðherra Ítalíu, hefur fordæmt innrás Rússa í Úkraínu og veitt Kænugarði hernaðarlegan og mannúðarlegan stuðning. Stuðningurinn gæti þó rýrnað með líklegum sigri hægra afla í þingkosningum 25. september.

Giorgia Meloni, sem er í framboði fyrir stjórnmálaflokkinn Brothers of Italy, stendur með Úkraínu, en flokkar Matteo Salvini og Silvio Berlusconi hafa lengi ræktað tengsl við Rússland og forseta landsins, Vladímír Pútín.

Segja afskipti mýtu

Matteo Salvini, formaður Lega Nord sem gerði samkomulag við United Russia, stjórnmálaflokk Pútín árið 2017 og hefur lengi haft dálæti á Rússlandsforsetanum, sagði við fjölmiðla í Mílan í dag „að Rússland hefði engin áhrif á kosningarnar á Ítalíu.“

Ásakanir um afskipti frá Moskvu eru ekki nýjar af nálinni. Maria Zakhavora, talsmaður fyrir utanríkisráðuneyti Rússlands, sagði í júlí síðastliðnum að ásakanir um afskipti Rússlands af kosningum á Ítalíu væru „margtuggin mýta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka