Þúsundir söfnuðust saman fyrir utan Zulu-konungshöllina í Suður-Afríku í dag, til að verða vitni að krýningu nýs konungs í þessu ríkasta og áhrifamesta konungdæmi landsins.
Konungurinn, Misuzulu Zulu, er 47 ára og tekur við hásætinu af föður sínum heitnum, Goodwill Zwelithini, sem lést í mars á síðasta ári eftir fimmtíu ár á valdastóli.
„Í dag hefst nýr kafli í sögu Zulu-þjóðarinnar. Ég lofa að ég muni vinna að því að sameina Zulu-þjóðina,“ sagði konungurinn í fyrsta ávarpi sínu, klæddur hefðbundnu hlébarðaskinni og með hálsmen prýtt klóm rándýra.
Konungsnafnbótin veitir ekki nein eiginleg völd innan ríkisins, en í embættinu felast þó mikil áhrif á þær ellefu milljónir manna sem tilheyra Zulu-þjóðinni, og mynda saman nærri fimmtung af fólksfjölda Suður-Afríku.
Snemma í morgun hófu karlar og konur í litríkum hefðbundnum klæðnaði að safnast saman fyrir utan marmarahöllina í hlíðum Nongoma, smábæjar í suðausturhluta landsins.
Konungar Zulu-þjóðarinnar eru afkomendur Shaka konungs, 19. aldar leiðtogans sem enn er dýrkaður fyrir að hafa sameinað stóran hluta landsins undir merkjum Zulu í blóðugri baráttu við nýlenduveldi Breta.
Fyrra nafn nýja konungsins merkir „að styrkja Zulu-þjóðina“ en vegur hans að krúnunni hefur ekki reynst hindranalaus.
Zwelithini konungur lét eftir sig sex eiginkonur og að minnsta kosti 28 börn þegar hann lést í fyrra. Misuzulu er fyrsti sonur þriðju eiginkonu hans, en hún var tilgreind sem arftaki Zwelithini í erfðaskrá konungs.
Hún féll þó skyndilega frá aðeins mánuði síðar, en áður hafði hún skipað fyrir um að Misuzulu yrði næsti konungur við andlát hennar. Aðrar greinar þessarar stóru ættar hafa ekki sætt sig að fullu við þessa þróun mála.
Drottningin Sibongile Dlamini, fyrsta eiginkona konungsins heitins, hefur stutt son sinn, prinsinn Simakade Zulu, sem réttmætan erfingja Zwelithini.
Þá hafa nokkrir bræður Zwelithini lýst stuðningi við enn annan prins.
Síðast í dag hafnaði dómstóll í Pietermaritzburg að taka fyrir kröfu tveggja dætra drottningarinnar um að setja lögbann á krýningarathöfnina.
„Þeir sem eru Zulu og þekkja hefðirnar, þeir vita hver konungurinn er,“ segir Themba Fakazi, sem var ráðgjafi Zwelithini, í samtali við fréttastofu AFP, en hann styður Misuzulu.