Að minnsta kosti 32 eru látnir eftir tvö umferðarslys í Tyrklandi í dag. Bæði slysin áttu sér stað þar sem árekstrar höfðu þegar orðið fyrr um daginn, að því er fjölmiðlar í landinu herma.
Árekstur rútu og sjúkrabíls varð 16 að bana og slasaði að minnsta kosti 21 til viðbótar, á hraðbraut í Gaziantep-héraðinu.
Fréttastofan DHA segir í umfjöllun sinni að farþegarúta hafi keyrt inn í sjúkrabíl, slökkviliðsbíl og aðra bifreið þar sem innanborðs voru blaðamenn, á vettvangi slyss sem þegar hafði orðið.
Fjórir sjúkraliðar, þrír slökkviliðsmenn og tveir blaðamenn fréttastofunnar Ilhas voru á meðal þeirra sem létust í slysinu.
Yfirvöld rannsaka einnig annað banvænt slys sem varð í dag, sem einnig átti sér stað á vettvangi annars áreksturs.
Að minnsta kosti 16 eru látnir og nærri 30 slasaðir eftir að vörubílstjóri keyrði á vegfarendur í bæ um 200 kílómetra austur af hinu slysinu.
Tyrkneski heilbrigðisráðherrann segir hemla vörubílsins hafa gefið sig og hann í kjölfarið keyrt inn í mannþröng. Átta munu vera alvarlega slasaðir.
Fréttastofan Anadolu segir þrjár bifreiðar hafa rekist saman á sama stað skömmu áður. Viðbragðsaðilar voru því þegar á vettvangi þegar slysið varð.
Myndskeið á samfélagsmiðlum hafa sýnt hvernig fjöldi fólks verður fyrir vörubílnum eftir að bílstjórinn missir stjórn á honum.
Varað er við myndefninu hér fyrir neðan.
At least 16 people were killed and 29 were injured when a semi-truck crashed into a crowd in Derik, Turkey. pic.twitter.com/Va9A6Tfp7G
— CBS News (@CBSNews) August 20, 2022