Bann við kynlífi samkynhneigðra fellt úr gildi

AFP/Sebastien Bozon

Stjórnvöld í Singapúr ætla að fella úr gildi lög sem banna kynlíf samkynhneigðra og verður því samkynhneigð ekki lengur ólögleg í borgríkinu. BBC greinir frá.

Það var Lee Hsien Loong, forsætisráðherra landsins, sem greindi frá ákvörðun ríkisstjórnarinnar í sjónvarpsávarpi.

Singapúr er þekkt fyrir íhaldsöm gildi en mikill þrýstingur hefur verið á stjórnvöld síðustu ár að fella lögin úr gildi. Þeim hefur þó ekki verið framfylgt nýlega, en með því hafa stjórnvöld reynt að gera til geðs bæði þeim sem vildu fella lögin úr gildi og þeim sem vildu halda þeim til streitu.

Lögin verða nú hins vegar felld úr gildi og sagði Lee það eina rétta í stöðunni. „Ég tel að það sé rétt að gera þetta núna og að flestir íbúar Singapúr styðji það,“ sagði hann. Sagðist hann vonast til að hinsegin fólki í Singapúr væri létt við tíðindin.

Lee tók þó einnig fram að skerpt yrði á lögum er varða skilgreiningu á hjónabandi á milli karls og konu. Sem gerir það að verkum að erfiðara verður að fá hjónabönd samkynhneigðra lögleidd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert