Fíkniefnapróf finnska forsætisráðherrans Sönnu Marin í kjölfar myndskeiðs af henni í skemmtanalífinu reyndist neikvætt. Myndskeiðið vakti athygli í Finnlandi og víða um heim auk háværra gagnrýnisradda, þar á meðal frá stjórnarandstöðu finnska þingsins.
Höfðu einhverjir uppi grunsemdir um að Marin hefði verið undir áhrifum fíkniefna þar sem hún dansaði í hópi vina sinna og þekkts fólks. Meðal þeirrar gagnrýni sem Marin hefur mátt þola er að hún virðist uppteknari af næturlífi Finnlands en stjórnun þess.
„Til að eyða öllum grunsemdum gekkst ég undir fíkniefnapróf,“ sagði ráðherra við fréttamenn á föstudag og tilkynnti ráðuneytið í dag að prófið hefði reynst neikvætt. Greindi Iida Vallin, ráðgjafi Marin, frá því að prófað hefði verið fyrir amfetamíni, kókaíni, kannabisefnum og ópíóðaefnum auk fleiri efna, að því er fram kemur í umfjöllun finnska ríkisútvarpsins.
Læknir hafi svo undirritað niðurstöður prófsins að sögn ráðgjafans. Ráðherra kvaðst hafa drukkið áfengi umrætt kvöld en neitaði alfarið að hafa nokkurn tímann um sína daga notað fíkniefni.