Sprengjusveit var kölluð til á útihátíð í miðborg Stokkhólms þegar tilkynnt var um tösku sem skilin hafði verið eftir í Kungsträdgården-almenningsgarðinum. Sprengju hafði verið komið fyrir í töskunni.
Sænska lögreglan sá til þess að tónleikagestir yfirgæfu svæðið, en þeir skiptu hundruðum.
Sprengjusveitin aftengdi sprengjuna á staðnum, að því er segir í tilkynningu lögreglu.
„Innihald sprengjunnar verður nú rannsakað. Eftir það verður hægt að leggja mat á það hvort sprengjan hafi verið hættuleg,“ er þar haft eftir lögreglustjóranum í Stokkhólmi, Erik Akerlund.
Lögreglan hefur nú hafið yfirheyrslur og talað við vitni á staðnum, ásamt því að skoða myndefni úr öryggismyndavélum á útihátíðinni.