Hjarta keisarans flutt til Brasilíu

Pedro I, fyrsti keisari Brasilíu.
Pedro I, fyrsti keisari Brasilíu. Ljósmynd/Wikipedia.org

Flogið verður með hjartað úr fyrsta keisara Brasilíu, Pedro I, til Brasilíu í tilefni þess að 200 ár eru liðin frá sjálfstæði landsins frá Portúgal.

Hjartað, sem er varðveitt í formaldehýði, verður flutt með herflugvél frá Portúgal. Með í för verður borgarstjóri Portó, Rui Moreira.  

Í Brasilíu verður tekið á móti hjartanu með hátíðlegri athöfn áður en það verður haft til sýnis fyrir almenning í utanríkisráðuneyti landsins, að sögn BBC. 

Hjartað verður síðan flutt aftur til Portúgals að loknum þjóðhátíðardegi Brasilíu, 7. september.

„Tekið verður á móti hjartanu eins og þjóðhöfðingja. Það verður meðhöndlað eins og ef Dom Pedro I væri enn á meðal vor,“ sagði Alan Coelho de Séllos, embættismaður hjá utanríkisráðuneytinu.

Á dánarbeði sínu óskaði Pedro I eftir því að hjartað yrði fjarlægt úr líkama hans og flutt til borgarinnar Porto. Þar er það geymt á kirkjualtari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert