Norðmenn taldir fallnir í sprengjutilræði

Hayat-hótelið í Mogadishu er rústir einar eftir árás Al-Shabaab-manna um …
Hayat-hótelið í Mogadishu er rústir einar eftir árás Al-Shabaab-manna um helgina. AFP/Hassan Ali Elmi

Norska utanríkisráðuneytið fékk upplýsingar um það í dag að tveir Norðmenn væru meðal látinna eftir hryðjuverkaárás samtakanna Al-Shabaab á Hayat-lúxushótelið í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu, aðfaranótt laugardags.

Árásin hófst með tveimur bílsprengjum utan við hótelið en í kjölfarið réðst hópur manna á vegum samtakanna inn í hótelið og hóf þar skothríð. Tala látinna nú er 21 en 117 særðust að auki í árásinni sem mjög rammt kvað að, lögregla og hermenn voru rúmar 30 klukkustundir að fella árásarmennina.

Aðstæður í Sómalíu krefjandi

„Við erum að kanna hvort norskir ríkisborgarar hafi beðið tjón í árásinni,“ segir Ragnhild Håland Simenstad, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Kveður hún aðstæður í Sómalíu mjög krefjandi og eigi ráðuneytið mjög takmarkaða möguleika á að aðstoða norska borgara þar í landi.

Prófessor í alþjóðasamskiptum við norska NMBU-háskólann, Stig Jarle Hansen, segir NRK að Al-Shabaab-liðar sérhæfi sig í árásum á hótel og séu það einkum hótel, sem sómalskir ráðherrar nota oft, sem verði fyrir barðinu á samtökunum.

NRK
VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert