Ryanair aflýsir flugferðum vegna verkfalla

Töluverð röskun er að flugi Ryanair vegna verkfalla.
Töluverð röskun er að flugi Ryanair vegna verkfalla. AFP/Pau Barrena

Aflýsa hefur þurft sex flugferðum írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair á Spáni í dag vegna fjögurra daga verkfalls flugáhafna sem hófst í dag. Starfsfólkið krefst hærri laun og betri vinnuskilyrða. AFP-fréttastofan greinir frá.

Verkfall starfsfólks Ryanair kemur til með að auka til muna vandann sem hefur víða komið upp vegna verkfalls flugáhafna og skorts á starfsfólki í kjölfar Covid-faraldursins. Næstu helgi mun starfsfólks EasyJet einmitt halda áfram verkföllum sínum.

Aflýsa hefur þurft fjórum flugferðum Ryanair til og frá Barcelona í dag og tveimur frá Palma á Mallorca. Þá hefur þurft að seinka 28 flugferðum.

Áhafnir Ryanair tóku einnig verkfallslotur í júní og júlí en þriðja verkfallslotan hófst 8. ágúst og mun standa yfir þangað til 7. janúar næstkomandi. Verkföllin standa yfir frá mánudegi til fimmtudags.

Verkalýðsfélögin sem standa að verkföllunum segja Ryanair eina alþjóðlega fyrirtækið á Spáni sem ekki hafi gengið frá kjarasamningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert