Nokkur titringur er nú í þýskum stjórnmálum vegna Warburg-málsins svonefnda, en það snýst um möguleg undanskot á fjármagnstekjuskatti vegna hlutafjárkaupa árið 2016. Þykir Olaf Scholz Þýskalandskanslari standa höllum fæti vegna málsins, en spurningar hafa vaknað um þátt hans þegar hann var borgarstjóri í Hamborg árið 2016, og hvort hann hafi átt þátt í að koma í veg fyrir að Warburg-bankinn yrði að endurgreiða stjórnvöldum.
Málið er hluti af mun stærra hneyksli, sem kennt er við svokölluð Cum-Ex-viðskipti, en það er latína fyrir „með“ og „án“. Nafngiftin felur í sér að viðskipti með hlutabréf voru gerð skömmu fyrir ákveðinn skiladag, og sóttu bæði kaupendur og seljendur bréfanna um skattaafslátt á arðgreiðslum vegna hlutabréfanna, jafnvel þótt einungis annar aðilinn ætti rétt á þeim.
Málið er viðamikið og teygir anga sína víða um Evrópu, en umfangsmikill leki á skjölum árið 2018 sýndi að nokkrir af stærstu bönkum heims höfðu tekið þátt í að nýta sér gloppur í skattareglum nokkurra Evrópuríkja til þess að svíkja um 55 milljarða evra út úr ríkissjóðum þeirra, eða sem nemur um 7.700 milljörðum króna.
Hefur nú þegar fjöldi fólks verið sóttur til saka vegna Cum-Ex-hneykslisins, þar á meðal bankamenn, hlutabréfasalar, lögfræðingar og fjármálaráðgjafar. Þá þurfti Warburg-bankinn á endanum að borga til baka tugi milljóna evra, vegna þrýstings frá þýsku ríkisstjórninni undir stjórn Angelu Merkel.
Þingið í Hamborg rannsakar nú hvers vegna fjármálaeftirlit borgarinnar ákvað árið 2016 að hætta við tilraun til þess að fá M.M. Warburg-bankann til þess að endurgreiða um 47 milljónir evra sem bankinn hafði fengið með Cum-Ex-viðskiptum sínum. Scholz var þá borgarstjóri, og hefur hann verið sakaður um að hafa átt þátt í ákvörðuninni um að láta kyrrt liggja.
Scholz bar því vitni á föstudaginn í annað sinn fyrir rannsóknarnefnd þingsins, og var kanslarinn spurður þar út í ýmsa fundi sem hann hafði átt með forystu bankans sem og fjármálaeftirlitsins á þessum tíma, en hann hafði viðurkennt í fyrri yfirheyrslu að hafa haldið þá fundi.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.