Ríkislögreglustjóri Arkansas í Bandaríkjunum hefur hafið rannsókn á þremur lögregluþjónum í Mulberry eftir að myndskeið, sem sýnir mjög ofbeldisfulla handtöku sem þeir framkvæmdu í gær, komst í umferð á lýðnetinu.
Hefur lögregluþjónunum verið vikið tímabundið úr starfi á meðan málið er til rannsóknar en á það hefur verið horft mörgum milljón sinnum á samfélagsmiðlum og notendur þar rætt málið eftir því.
Crawford sheriff dept Arkansas pic.twitter.com/KZAmwzwwmV
— Naomi Johnson (@NaomiRHelm) August 21, 2022
Kona nokkur tók myndskeiðið upp við bensínstöð í bænum þar sem þremenningarnir höfðu skólausan mann í haldi og sátu tveir þeirra ofan á honum. Þegar vitnið bar að garði voru lögregluþjónarnir hins vegar að ræða við manninn sem sat á gangstéttarbrún. Þegar hann reyndi svo að forða sér var honum skellt í jörðina umsvifalaust.
Bill Sadler, talsmaður ríkislögreglustjóra, kveður fulltrúa þar á bæ nú rannsaka málið og fara yfir myndskeiðið. Hann hafi ekkert frekar um málið að segja og engar upplýsingar um persónu fórnarlambsins.