Hluti af 30 lífvörðum Haraldar Noregskonungs sem reknir voru úr norska hernum fyrir neyslu kókaíns, e-taflna og kannabisefna í einkasamkvæmi fyrr í sumar, hafa nú leitað með lagaleg álitaefni brottrekstrarins til lögmannsstofu Johns Christians Eldens í Ósló.
Forsaga málsins er á þá leið að stjórnendum innan hersins, en lífverðirnir eru deild í honum, barst ábending um að efni hefðu verið höfð um hönd í téðu samkvæmi. Voru hlutaðeigandi þegar kallaðir til yfirheyrslu og játuðu þá fimm til að byrja með að þeir hefðu neytt efnanna. Þegar saumað var að hinum 25 játuðu þeir að lokum einnig.
„Þættir í meðferð þessa máls gefa tilefni til alvarlegra áhyggja þótt ekki séu efni til að slá neinu föstu svo snemma í meðferð málsins,“ segir Inger Zadig, lögmaður á stofunni, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. Hún telur viðbrögð stjórnenda hersins mikið inngrip í líf lífvarðanna sem hafi þungar afleiðingar.
„Við höfum rætt við nokkra þeirra sem hlutu brottrekstur og munum kanna hvort þetta voru rétt viðbrögð hjá hernum. Málið er á byrjunarstigi hjá okkur svo ég get ekki tjáð mig mikið um það eins og er,“ segir Elden við NRK.
Trond Robert Forbregd, yfimaður lífvarðar Noregskonungs, tók ákvörðunina um brottvikningu þrjátíumenninganna. „Þetta eru flottir menn og konur sem gerðu mistök. Það hefur afleiðingar,“ segir hann við NRK.
Enn fremur ræðir ríkisútvarpið við Brage Steinsson Wiik-Hansen, einn talsmanna hersins, sem kveður þrjátíumenningana í öllum rétti til að láta reyna á lögmæti brottvikningarinnar. „Herinn hefur ekki meira um málið að segja,“ lýkur hann máli sínu.