Myrti mann eftir að hafa þóst vera í vanda

Konan fékk parið til að stöðva bílinn. Mynd úr safni.
Konan fékk parið til að stöðva bílinn. Mynd úr safni. AFP

Kona sem þóttist vera ráðvillt og týnd skaut 22 ára mann til bana í þjóðgarði í Alabama í Bandaríkjunum. 

Maðurinn, Adam Simjee, var ásamt kærustu sinni Mikaylu Paulus að keyra í þjóðgarðinum Talladega, skammt frá borginni Birmingham, að morgni sunnudagsins 14. ágúst.

Önnur kona, Yasmine Hider, fékk þau þá til að stöðva bílinn og tjáði þeim að bíll hennar færi ekki í gang.

Talin hafa haldið til í tjaldi í þjóðgarðinum

Þegar parið nálgaðist hana dró hún fram byssu og leiddi þau tvö inn í skóg, en þá dró Simjeee sjálfur fram byssu sem varð til þess að hann og Hider hleyptu bæði af skotum.

Hider var skotin nokkrum sinnum í kviðinn en Simjee nokkrum sinnum í bakið.

Unnusta Simjee reyndi að endurlífga kærasta sinn án árangurs og lét hann lífið skömmu síðar. Hider var flutt á spítala í Birmingham þar sem hlúð var að sárum hennar.

Talið er að Hider hafi tilheyrt hópi sem heldur til í tjöldum í þjóðgarðinum og dæmi eru um að fólk í hópum sé vopnað og mögulega hættulegt, samkvæmt því sem lögregluyfirvöld í Birmingham hafa gefið út.

Hider verður ákærð fyrir mannrán, rán og morð, að því er fram kemur í umfjöllun New York Times.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka