Blaðamaður var skotinn til bana í suðurhluta Mexíkó seint í gær, stuttu eftir að hafa skrifað færslu á Facebook um hvarf 43 kennaranema fyrir átta árum á nærliggjandi svæði.
Fredid Roman, sem skrifaði í dagblað og birti efni á ýmsum samfélagsmiðlum, fannst látinn í bíl sínum í borginni Chilpancingo, höfuðborg Guerrero-ríkis, að sögn embættis saksóknara í ríkinu.
Mál 43 nemenda frá Guerrero sem hurfu árið 2014 eftir að hafa tekið yfir strætisvagn á leiðinni í mótmæli er talið einn versti mannréttindaharmleikur í sögu Mexíkó.
Málið komst aftur í fréttirnar í síðustu viku þegar sannleiksnefnd sagði verknaðinn „ríkisglæp“ sem fólk úr ýmsum stofnunum hafi komið að.
Nokkrum klukkustunum áður en hann lést birti Roman langa færslu á Facebook undir fyrirsögninni „Ríkisglæpur án þess að ákæra höfuðpaurinn“. Þar talaði hann um meintan fund fjögurra embættismanna á svipuðum tíma og kennaranemarnir hurfu, þar á meðal fyrrverandi dómsmálaráðherrann Jesus Murillo Karam.