Stjórnvöld í Úkraínu þvertaka fyrir að sérsveitir landsins hafi staðið á bakvið morðið á Darya Dugina, dóttur Alexanders Dugin, eins helsta bandamanns Rússlandsforseta. BBC greinir frá.
Rússneska leyniþjónustan (FSB) hefur sagt að málið sé upplýst og að Úkraínumenn beri ábyrgð á ódæðinu.
„Við vinnum ekki á þann hátt,“ sagði Oleksiy Danilov, yfirmaður þjóðaröryggis- og varnarmálaráðs Úkraínu, í sjónvarpsávarpi. Úkraínumenn hafi mikilvægari verkefnum að sinna. Hann fullyrti jafnframt að rússneska leyniþjónustan stæði sjálf á bakvið morðið og væri nú að reyna að varpa sökinni yfir á Úkraínumenn.
Dugina lést í bílasprengju á laugardagskvöld þegar hún var á heimleið af hátíð sem hún sótti ásamt föður sínum í nágrenni Moskvu. Þau ætluðu að fara í sama bíl heim en hann breytti áformum sínum á síðustu stundu. Talið er að Dugin hafi mögulega verið skotmark árásarinnar.
Dugin, sem er heimspekingur og aðhyllist öfga-þjóðernisstefnu, er stundum sagður vera „heili“ Vladimír Pútíns, forseta Rússlands. Hann er talinn hafa átt mikinn þátt í móta stefnu Pútíns þegar kom að innrásinni Úkraínu. Dóttir hans hefur verið dugleg að breiða út boðskap föður síns og studdi innrásina í Úkraínu opinberlega
Pútín hefur fordæmt ódæðið og veitti Dugina orðu fyrir hugrekki sitt. Minningarathöfn fór fram í Moskvu í dag.
Danilov, hjá þjóðaröryggis- og varnarmálaráði Úkraínu sagði í ávarpi sínu að FSB væri að skipuleggja fjölda árása innan Rússlands þar sem stuðningur almennings við stríðið færi minnkandi. Tilgangurinn væri að varpa sökinni á Úkraínumenn.