Hitabylgjan sem olli húsbrunum og fleiri búsifjum í Bretlandi nýverið hafði víðtækari áhrif en eignatjón og uppþornun heilu stöðuvatnanna og ánna. Bretar sjá nú býsna snemmbúna haustkomu, almenningsgarða og skóglendi í litskrúðugum haustbúningi mörgum vikum fyrir hefðbundinn tíma.
Skýrist þetta fyrirbæri, svokallað „falskt haust“, af því að lauftré reyna í örvæntingu að verjast ofþornun og halda eðlilegu rakastigi með því að fella lauf sín. Að sögn fræðinga á þetta einkum við um yngri tré þar sem rætur þeirra eldri liggi dýpra í jörðu sem auðveldi þeim að þola mikla þurrkatíð.
„Trén virkja hormónana sem þau nota á haustin til að fella lauf sín og komast þannig af,“ útskýrir Rosie Walker sem starfar hjá Woodland Trust, eins konar góðgerðarstofnun fyrir tré og trjágróður. Walker ræddi við breska ríkisútvarpið BBC og sagði að trén þyldu vel í nokkur ár að fella lauf sín snemma vegna sumarhita en eftir það færi að síga á ógæfuhliðina.
Hitastig náði í fyrsta sinn á mælingatíma 40 gráðum í Bretlandi í júlí eftir mjög heitar vikur á undan og benti Walker á að fullþroskuð brómber hefðu sést 28. júní en þeirra tími er almennt haustið.
Haldi sú þróun áfram að ber og hnetur fari að þroskast mánuðum fyrr en ella mun það koma hart niður á fuglum og ýmsum smærri spendýrum sem koma sér upp orkuforða fyrir veturinn í september og október.
Steve Hussey, talsmaður Devon Wildlife Trust á Suðvestur-Englandi, segir við BBC að dýralífið eigi allt undir tímasetningu náttúrunnar. „Þetta langa heita sumar og falska haustið verður villtum dýrum fjötur um fót á haustmánuðum og næstu mánuðum þar á eftir,“ segir Hussey.