Handtekinn vegna ummæla um hernað Rússa

Yevgení Roizman.
Yevgení Roizman. AFP/Alexei Vladykin

Rússneska lögreglan hefur handtekið einn síðasta opinbera stjórnarandstæðing landsins sem var ekki á bak við lás og slá, eftir að hann gagnrýndi hernað Rússa í Úkraínu, að sögn rússneskra ríkisfjölmiðla.

Yevgení Roizman, fyrrverandi borgarstjóri í Yekaterinburg, var handtekinn í morgun fyrir að „kasta rýrð á“ rússneska herinn í ummælum um hernað Rússa í Úkraínu.

„Roizman var handtekinn snemma í morgun“ á heimili sínu í Yekateinburg, sagði fréttastofan TASS og vitnaði í lögregluna.

„Sakamál er hafið á hendur honum fyrir að kasta rýrð á rússneska herinn,“ kom þar einnig fram.

Roizman gæti átt yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi verði hann fundinn sekur.

Tugir vopnaðra lögreglumanna í felulitum ruddust inn á heimili Roizman, sem er 59 ára, að því er sést í myndbandi sem var birt á sjónvarpsstöðinni Mash Telegram, sem er sögð mjög hliðholl rússneskum öryggissveitum.

Roizman hafði áður verið sektaður þrívegis fyrir að gagnrýna innrásina í Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert