Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, varði af krafti starfsferil sinn og rétt til einkalífs í ræðu í dag, en hún hefur fengið á sig mikla gagnrýni eftir að myndband af henni skemmta sér fór í dreifingu á dögunum. AFP-fréttastofan greinir frá.
„Ég er mannleg. Stundum fæ ég löngun til að gleðjast, létta lund mína og skemmta mér, inn á milli erfiðra ákvarðanataka,“ sagði Marin og reyndi að halda aftur af tárunum þegar hún ávarpaði fund Jafnaðarmannaflokksins í Lahti í norðurhluta Finnlands.
„Þetta er persónulegt, þetta er gleði, þetta er lífið,“ sagði hún. „En ég hef aldrei misst dag úr vinnu,“ bætti hún við.
Marin viðurkenndi að síðasta vika hefði verið henni ansi erfið.
„Ég vil trúa því að fólk horfi á það sem ég geri í vinnunni frekar en í frítíma mínum.“
Myndbandinu af Marin var lekið í síðustu viku og hefur vakið mikla athygli. Þar sést forsætisráðherra dansa og syngja í góðra vina hópi og með þekktum einstaklingum.
Hún hefur verið töluvert gagnrýnd vegna myndbandsins, sérstaklega af stjórnarandstöðunni. Gagnrýnin hefur meðal annars snúið að því að hegðun hennar sæmi ekki forsætisráðherra.
Margir hafa líka komið Marin til varnar og sagt að hún eigi rétt á að skemmta sér með vinum í frítíma sínum.
Marin fékk líka á sig ásakanir um að hún hefði verið undir áhrifum fíkniefna. Til að sanna að það hefði ekki verið raunin gekkst hún undir fíkniefnapróf sem reyndist neikvætt.
Í gær neyddist Marin svo til að biðjast afsökunar á mynd sem fór í dreifingu sem tekin var í ráðherrabústaðnum í sumar. Hún sýndi tvær konur kyssast og lyfta upp bolunum sínum, en hylja brjóstin. Önnur þeirra hélt á skilti sem á stóð „Finnland“. Marin sagði myndina hafa verið tekna í einkasamkvæmi og að ekkert ólöglegt hefði átt sér stað. Myndatakan hefði engu að síður verið óviðeigandi á heimili forsætisráðherra.
Flokkur Marin hefur stutt við bakið á henni en finnskir miðlar greina nú frá því að gagnrýnisraddir séu farnar að heyrast innan úr flokknum eftir að mynd af konunum að kyssast fór í dreifingu.