Að minnsta kosti 15 liggja í valnum og tugir eru sárir eftir flugskeytaárás Rússa á lestarstöð í bænum Tsjaplin sem er um 150 kílómetra vestur af Donetsk í Austur-Úkraínu.
Frá þessu greindi Volodimír Selenskí Úkraínuforseti í dag og kvað lest hafa orðið fyrir flugskeytum, hafi fjórir vagnar hennar staðið í ljósum logum. Árásin er gerð á þjóðhátíðardegi Úkraínu en hann er til marks um að þennan dag árið 1991 öðlaðist landið sjálfstæði við fall Sovétríkjanna.
Forsetinn varaði sérstaklega við „andstyggilegum ögrunum Rússa“ í gær í tengslum við þjóðhátíðina og dirfðust sumir ekki að taka þátt í hátíðarhöldum í dag, svo sem í höfuðborginni Kænugarði.
Selenskí ávarpaði öryggisráð Sameinuðu þjóðanna um fjarfundabúnað í dag og greindi þar frá flugskeytaárásinni. Fyrr í dag hafði hann í ávarpi til þjóðar sinnar sagt Úkraínu hafa endurfæðst þegar Rússar réðust til atlögu í febrúar og lýsti því yfir að á efsta degi rækju Úkraínumenn Rússa af höndum sér.
„Ný þjóð birtist heimsbyggðinni klukkan fjögur að morgni 24. febrúar. Hún fæddist ekki heldur endurfæddist. Þjóð sem felldi ekki tár, öskraði ekki og varð ekki felmt við. Hún lagði ekki á flótta. Lét ekki deigan síga. Og gleymdi ekki,“ sagði forsetinn þar sem hann stóð í sínum vanabundnu herflíkum við sjálfstæðisminnismerkið í Kænugarði.
Í borginni Karkív ríkti útgöngubann af ótta við að sprengjuregnið herti þar enn vegna þjóðhátíðardagsins en borgin hefur orðið illa úti í ítrekuðum árásum síðustu mánuði.