Fær ekki meira en mínútu úti á dag

Roísman hefur nú þegar verið sektaður þrisvar fyrir að gagnrýna …
Roísman hefur nú þegar verið sektaður þrisvar fyrir að gagnrýna hernaðaraðgerðir Rússa í Úkraínu. AFP

Pólitískur andstæðingur stjórnvalda í Rússlandi, Jevgení Roísman, hefur verið úrskurðaður í stofufangelsi uns mál hans verður tekið fyrir af rússneskum dómstólum.

Er honum gefið að sök að hafa dregið úr trúverðugleika rússneska hersins, með ummælum sínum er varða innrás Rússlands í Úkraínu. 

Ekki meira en mínúta á dag

Roísman er fyrrverandi borgarstjóri í Jekaterínbúrg. Í dag var ákveðið að skerða ferðafrelsi hans til 29. september þegar mál hans fer fyrir dómstóla. Hann má ekki yfirgefa heimili sitt í meira en eina mínútu á dag og þá má hann ekki sækja opinbera viðburði eða nota veraldarvefinn og hvorki senda bréf né taka á móti þeim. 

Honum er einungis heimilt að eiga í samskiptum við nánustu fjölskyldu sína, lögfræðinginn sinn og rannsakendur. 

Sektaður þrisvar

Þegar ákvörðun þessi var tekin höfðu stuðningsmenn Roísman safnast saman fyrir utan réttarsalinn og kölluðu þeir: „Frelsi!“

Hann hefur nú þegar verið sektaður þrisvar fyrir að gagnrýna hernaðaraðgerðir Rússa í Úkraínu. Nú er honum aftur á móti gefið að sök að hafa birt myndband á netinu sem dragi úr trúverðugleika hersins, og varðar það allt að þriggja ára fangelsi. 

Hann hefur áður tekið út 9 daga fangelsisvist, eftir að hafa skipulagt mótmæli vegna fangelsunar Alexeis Navalní. 

Tveir aðrir pólitískir andstæðingar Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta hafa nýlega verið fangelsaðir í Rússlandi vegna ummæla sinna varðandi stríðið í Úkraínu og eiga yfir höfði sér hátt í 10 ára fangelsisvist. Það eru Ilía Jasjín konsúll og aktívistinn Vladimír Kara-Múrtsa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert